Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 49/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 26. janúar 2024.
í máli nr. 49/2023:
GS Lausnir ehf.
gegn
Múlaþingi,
Fljótdalshreppi
Íslenska gámafélaginu ehf.

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað. Bindandi samningur.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um að tiltekinn samningur yrði stöðvaður tafarlaust.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 9. desember 2023 kærði GS Lausnir ehf. (hér eftir „kærandi“) ákvörðun Múlaþings (hér eftir „varnaraðili“) um að bjóða ekki út sorphirðu, gámaflutninga, gámaleigu og tengda þjónustu.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi tafarlaust og ógildi samning á milli Múlaþings og Íslenska gámafélagsins án útboðs án tafar. Þá gerir kærandi kröfu um að verkefnið verði boðið út án tafar og að varnaraðila og Íslenska gámafélaginu ehf. verði gert að greiða sektir auk skaðabóta og málskostnaðar til kæranda. Þá óskar kærandi eftir úrskurði kærunefndar útboðsmála um hvort farið hafi verið eftir lögum um opinber innkaup, lögum um samning um Evrópska efnahagssvæðið og stjórnsýslulögum.

Kæran var kynnt varnaraðila og Íslenska gámafélaginu ehf. og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Með athugasemdum 15. desember 2023 krefst varnaraðili þess að kröfu kæranda um stöðvun verði vísað frá eða hafnað. Íslenska gámafélagið ehf. lagði fram athugasemdir sama dag og mótmælti meðal annars stöðvunarkröfu kæranda.

Við yfirferð á framlögðum gögnum frá varnaraðilum mat kærunefndin það svo að málið varðaði einnig hagsmuni Fljótdalshrepps. Var þeim aðila kynnt kæran með tölvupósti 8. janúar 2024 og boðið að koma á framfæri athugasemdum. Með tölvupósti 12. sama mánaðar tók Fljótdalshreppur undir athugasemdir Múlaþings um stöðvunarkröfu kæranda.

Kröfugerð kæranda er ekki alls kostar í samræmi við framsetningu laga nr. 120/2016 á úrræðum kærunefndar. Kærunefndin hefur því ákveðið að líta svo á að með kröfugerðin lúti m.a. að því að stöðvuð verði samningsgerð, sbr. 110. gr. laga nr. 120/2016. Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til þess þáttar kröfugerðar kæranda sem skilja má með þessum hætti. Málið bíður að öðru leyti úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins komst á samningur milli Fljótdalshéraðs, Fljótdalshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar annars vegar og Íslenska gámafélagsins ehf. hins vegar um sorphirðu o.fl., dags. 25. janúar 2016, í kjölfar útboðs á þjónustunni. Fyrir liggur að Múlaþing varð til við sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, sbr. auglýsing nr. 1037/2020 um staðfestingu á heiti sveitarfélagsins Múlaþings. Með samningi 9. nóvember 2023 var samningurinn framlengdur um sex mánuði með möguleika á framlengingu til ársloka 2024 af hálfu Múlaþings og Fljótdalshrepps.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Fyrir liggur í málinu að samningur er í gildi á milli Múlaþings, Fljótdalshrepps og Íslenska gámafélagsins ehf. Verður því að hafna þeim þætti í kröfugerð kæranda sem ætlað verður að lúti að stöðvun á gerð þess samnings en úr öðrum þáttum kröfu aðila verður leyst með úrskurði þegar þeir hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.

Ákvörðunarorð:

Þeim þætti í kröfugerð, GS Lausna ehf., sem felur í sér að kærunefnd útboðsmála stöðvi tafarlaust gerð samnings milli Múlaþings, Fljótdalshrepps og Íslenska gámafélagsins ehf., er hafnað.


Reykjavík, 26. janúar 2024.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum